sunnudagur, nóvember 28, 2004

Miklagljúfur // The Grand Canyon

Miklagljúfur er í norðvesturhluta Arizona. Þjóðgarðurinn er rúmlega 1,2 milljón ekrur að stærð og er á UNESCO listanum. Maður finnur virkilega fyrir því að vera staddur næstum 2500 m.y.s og við urðum fljótt ótrúlega móð þegar við vorum að klifra niður í gilið og sérstaklega aftur upp!! OK, við erum ekki í besta formi í heimi, en kommon!
Allavegana...
Ég vissi að gljúfrið væri stórt áður en ég kom þangað, en þegar ég sá það þá var ég alveg orðlaus. Þetta er algjörlega ótrúlegt hvernig náttúran (á 1,800 milljón árum) skar þetta svakalega gljúfur. Litirnir, dýptin, stærðin... algjörlega yfirgnæfandi fegurð. Setur allt í samhengi. Svakalega er maður lítill! :) Og hugsa sér, þarna bjuggu menn, bæði uppi á brúninni og niðri í gljúfrinu! Hitinn verður mjög hár á sumrin yfir daginn og dettur hratt niður á nóttinni. Það verður einnig rosalega kalt á veturna; það var snjór út um allt þegar við vorum þarna um helgina.
Við sáum kanínur, dádýr (mule deer), hrafna, ref, mús, "mockingbirds", "blue jays" og fullt af allskonar fuglum sem við gátum engan veginn fundið út hvað var. Við hlustuðum á einn af þjóðgarðsvörðunum segja frá kondórunum sem búa þarna. Miklagljúfur er s.s. einn af þremur stöðum þar sem verið er að sleppa kondórum til að endurreisa stofninn. Tveir ungar hafa komist á legg hjá sitthvoru parinu síðan prógrammið byrjaði, sá yngri tók sín fyrstu vængtök á þakkargjörðardag! Þeir sem fylgdust með því sögðu að þetta hafi verið meira eins og skipulagt fall, ekki mjög þokkafullt flug :) En við vissum þó allavegana núna að við vorum á kondórasvæði!!
Við heimsóttum einnig 800 ára gömul hýbýli indjána sem bjuggu á svæðinu. Það voru ættbálkar sem bjuggu þarna og byggðu ótrúlega falleg hús, kölluð 'pueblos'. Navajo indjánar kalla þetta fólk 'Anasazi' sem þýðir "ancient ones". Það hvarf skyndilega frá svæðinu fyrir um 800 árum og lítið hefur fundist sem gefur til kynna hvers vegna þeir fluttu á svæðið til að byrja með og svo af hverju þeir fóru svo skyndilega. Þar sem engar skriflegar heimildir eru til, og það er andstætt trú Navajo indjána að valda jarðraski og grafa upp fornleifar, þá eru enn mjög skiptar skoðanir og getgátur í gangi um hvað hafi nákvæmlega gerst á þessum tíma. En töluvert af hýbýlunum stendur enn og við horfðum á fullt tungl rísa yfir 'painted desert' eyðimörkinni og skína á indjánarústir. Alveg ótrúlega fallegt.
Ég gæti haldið áfram að tala um hvað þetta var geggjað, en ég læt þetta duga í bili. Það sem ég vil benda öllum lesendum á er að setja Miklagljúfur á listann yfir hluti sem þarf að gera! :)
Myndir koma seinna!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home