mánudagur, maí 30, 2005

Memorial Day

Í dag er Memorial Day. Það er dagurinn sem fólk minnist þeirra sem hafa dáið í þjónustu þessa lands. Flestir eru í fríi. Þeir sem geta, fara eitthvað í burtu og eyða tímanum með fjölskyldunni. Abdul og ég ákváðum að þetta er EKKI góð helgi að fara eitthvað. Enda eru vegirnir algjörlega pakkaðir af bílum, algjör vibbi að komast um. Í staðinn erum við bara að vinna. Dugleg við.

Ég er að skella inn einu myndaalbúmi... myndirnar eru síðan í apríl en ég bara steingleymdi að skella þeim inn. Þær eru teknar í Mission San Juan Capistrano sem er einn sá fallegasti staður sem ég veit um. Ég get eytt endalausum tíma þar. Þetta er ekki langt héðan þannig að þið sem lúsist til að koma í heimsókn getið komið með mér þangað!

föstudagur, maí 27, 2005

Crash!

Í gærkvöldi fór ég í bíó með Abdul og nokkrum krökkum með honum í skóla og við fórum að sjá þessa líka brill mynd sem heitir Crash. Hún er stjörnuprýdd en er hálfgerð Indie-mynd. Það er eiginlega ekki hægt að segja frá plottinu en hún fjallar mikið um hvernig við skilgreinum sjálf okkur og aðra út frá hörundslit. Farið vel yfir allar stereotýpurnar sem maður hittir hérna í þessum heimshluta. Myndin gerist í LA. Farið að sjá hana, lesendur góðir.

Við ætluðum að fara í San Diego Zoo í dag, en þar sem það er Memorial Day Weekend þá var bara GEÐVEIK ös strax í morgun! Við ákváðum bara í staðinn að labba um Balboa Park, sem er alveg voðalega fallegt svæði og mikið að skoða þar.

Brill veður, sumarið er komið og ég er orðin brún á handleggjunum.

fimmtudagur, maí 26, 2005


Og hér er enn ein stórgóð mynd af honum... að borða marsjmellós! Posted by Hello

Og hér er hann að pósa... Posted by Hello

TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ!!!


Þetta er hann Haukur bróðir minn! Hann er 19 ára í dag!! Posted by Hello

Oooog þær eru komnar!

Kíkið á myndirnar!

Meow then...

Ég var víst búin að lofa myndum, og hér koma þær... rétt bráðum... er að græja smá með Orminum Langa fyrst...

Í gær fór ég í Victoria's Secret og notaði innleggsnótu sem ég fékk gefins í afmælisgjöf. Ég keypti mér tvo hlýralausa haldara í So-Sexy línunni þeirra, einn hvítan og einn svartan. Nú er ég tilbúin fyrir Kaliforníusumarið og get gellast um á hlýrabolum og hlýralausum bolum! Woohoo!

Ég fékk ljómandi fallegar gallabuxur í afmælisgjöf frá honum föður mínum, en nú er það orðið svo að ég þarf að þvo þær og setja í þurrkara næstum daglega, þar sem ég er víst búin að léttast og þær eru orðnar dáldið stórar á mig. En það er víst af nógu að taka, þannig að ég ætla ekki að verða of æst og uppveðruð. En þetta kemur, hægt og rólega.

Og já, hárið á mér er orðið svo sítt og hryllilegt að börn hlaupa frá mér á götum úti, fullorðnir benda og grípa fyrir munninn á sér til að bæla niður hryllings ópin... ég er komin með viðurnefnið "Crazy Woman". Ætli það sé bara hárið?

þriðjudagur, maí 24, 2005

Jedi-riddarar eru aumingjar

Það hafa heyrst háværar raddir um að ég skrifi ekki á bloggið... þá spyr ég á móti: "Hvað á ég eiginlega að skrifa um??!" Það er barasta ekkert markvert að gerast...

Það helsta er:
  • ég hvolfdi bátnum á síðustu siglingaræfingu og týndi sólgleraugunum mínum.
  • Ég keypti ný sólgleraugu.
  • ég eyddi laugardeginum (júróvisjón) með Nicky vinkonu og Hannah, vinkonu Nicky frá London, bara að þvælast í búðir og hanga.
  • bróðir Abdul er byrjaður að deita stelpu (sem er upprunalega frá Venezuela) sem heitir Margarita.
  • Abdul og ég fórum að sjá Episode III í gærkvöldi og hún var bara ljómandi, nema að Jedi-riddarar eru með mestu smjörputta ever!!! Þeir hafa "The Dropsies" með mesta móti!
  • ég er með heimþrá en það lítur ekki út fyrir að ég fái nein ferðaskjöl í bráð... 18. júní er dagsetningin í síðasta lagi.
Og hananú. Þarna sjáiðið, það er ekkert fréttnæmt. Hættiði svo að kvarta. Ég set inn nokkrar myndir frá Sequoia síðar í dag.

mánudagur, maí 16, 2005

Helliskelling


Það var ógisslega gaman inní þessum marmarahelli! Svo ofan á marmaranum voru kalk-útfellingar út um allt og mynduðu allskonar dropasteina, gardínur, borgir og allskonar flottar mótanir!!!! Posted by Hello

Klifurmúsir og skröltormar

Ég er að deyja í lærunum og kálfunum!!! Í gær fórum við með hópi af fólki úr skólanum upp á Modjeska Peak (1675 m.y.s) og vó hvað það var vibbalega heitt! Að sjálfsögðu völdum við heitan sunnudag... á tímabili fannst mér eins og hausinn á mér myndi springa hvað á hverju. En það er ofboðslega fallegt þarna uppi og mikið fuglalíf, eðlur, snákar og skröltormar, fiðrildi og hrikalega falleg villiblóm. Helsta vandamálið, annað en að vera að DEYJA úr hita og svita, var að finna seif stað til að pissa, því alls staðar var líka "poison ivy" og maður gat ekki stungið bossanum niður hvar sem er!!!

Highlightið var, fyrir mig, að sjá miðlungs stóran skröltorm á veginum, chillandi í sólinni með fullan maga. Hann var ekkert rosalega hress með okkur, en við flýttum okkur framhjá honum!! Þeir eru MIKLU breiðari en ég bjóst við, hausinn er MUN stærri og þessi var ofboðslega fallegur litur, alveg eins og kanell, með smá rauðu í :) Rosa flottur!

Jæja, ég þarf að fara að drífa mig, berjast við fjöldann í búðinni... ég er að versla núna í einni búð sem er hrikalega ódýr, með rosa fínt Deli-úrval, geggjaða osta, æðislegt bakarí, fullt af allskonar skrítnu grænmeti og girnilegum ávöxtum... en ég er s.s. ekki sú eina sem verlsa þarna og það er alltaf stappað útúr dyrum!

Toodles í bili!

sunnudagur, maí 15, 2005

Myndband af bangsímon-SKOÐA NÚNA!!

Jæja, þið sem hafið áhuga á að sjá kúl myndband, smellið hér. Þetta er myndband af birninum sem var að rölta við hliðina á bílnum okkar að borða... Svo gargar Abdul eitthvað því einhver ítalabjáni fór ÚTÚR BÍLNUM og fór að labba í áttina að birninum!!! Og NB, þetta video er tekið á myndavélina okkar, þannig að það er ekkert zúmm, björninn VAR svona nálægt okkur!!

Sigrún frænka mín gerði ykkur kleift að skoða þetta, og það er því ekki hægt að hafa myndbandið endalaust á serverinum hennar... drífið ykkur því í að skoða og hananú!

föstudagur, maí 13, 2005

Sofið án sængur

Þá er víst komið að því, að pakka gömlu, góðu IKEA sænginni inn í skáp. Sumarið kom í gær. Bara allt í einu var orðið of heitt að sofa með sæng og nú verður bara sofið með lak þar til í haust. Ég var einmitt að skipta á rúmunum og fattaði að ég kann ekkert að setja svona lök á rúm!! :D

Er að fara í gegnum Júró-lögin og þau eru eins og öll önnur ár, hvert öðru verra! Austurríkislagið stendur uppúr eins og er með vondleika, Bosnía-Hersegovina er eins og ABBA-tríó... og Belgía er hrikalega dull, dull, dreadfully dull.

Jæja, ætli maður verði ekki að fara út í góða veðrið og reyna að losna við þessa bóndabrúnku sem ég skarta svo vel!

miðvikudagur, maí 11, 2005

Eurovision!!!

Ef einhver veit hvort og hvar ég get horft á júróvisjón online, endilega skilið eftir skilaboð. In the meantime ætla ég að skemmta mér að hlusta á öll gömlu góðu júróvisjón lögin! Kíkið á linkinn!

þriðjudagur, maí 10, 2005

Bangsímon


Já, var ég búin að minnast á að við rákumst á þennan? Hann var að gæða sér á grasi við veginn... agalega sætur! Posted by Hello

mánudagur, maí 09, 2005

Ótrúleg náttúrufegurð!


Þetta er tekið í Kings Canyon þjóðgarðinum... grái kletturinn fyrir aftan okkur er gegnheilt granít! Við fórum inn í hann og fundum þar marmarahelli með fullt af allskonar dropasteinamyndunum... mmmm... ég hefði sko getað rúllað mér þar um í langan tíma og breyst í Gollum!!! mmmyyy precioousssssss.... Posted by Hello

Grislingar og fleira...

Við fórum um helgina upp í Sierra Nevada fjöllin og skoðuðum Sequoia National Park og Kings Canyon National Park og ÞAÐ VAR ÆÐI!!! :D Sáum stærstu núlifandi tré í heimi og jeminneini hvað það var ótrúlega tilkomumikið að sjá þau. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því. Við tókum auðvitað fullt af myndum sem ég mun troða á internetið, auðvitað.

Mig dreymdi alveg vibba-draum í nótt... dreymdi að amma dó, svo dó afi, svo mamma... og ég var föst í útlöndum og gat ekki farið heim til restarinnar af fjölskyldunni. Ég grét og grét og grét, og var komin með ekka; vaknaði svo við ekkann í sjálfum mér, útgrátin um augun í svefni... :/ Dr. Freud, hvað segiru við þessu?!

Við erum byrjuð að hleypa strákunum út í sitthvoru lagi (ég er sko að tala um naggrísina!!) af því ef þeir voru saman á gólfinu, þá upphófust alltaf miklar merkingar og yfirlýsingar um hver ætti gólfið á bak við sjónvarpið og undir sófaborðinu... VIBBALEG LYKT! Svo í dag, þá fór Dusty (a.k.a. Boss Hog) fyrstur á gólfið og hljóp og hljóp. Svo "gekk ég frá honum" og The Fonze fór á gólfið og hljóp og hljóp. Þá varð Dusty þetta líka fúll á móti, stóð uppi á rúmminu sínu með framlappirnar á brúninni á gólfinu í búrinu og kvartaði sáran yfir þessu óréttlæti heimsins, að KRAKKINN fengi að hlaupa um en hann EKKI! Hann fylgdist stíft með honum og horfði sakbitnum augum á grislinginn hlaupa fram og tilbaka... Abdul og ég hlógum okkur máttlaus, höfum aldrei séð annað eins hjá þessum vitleysingum!

Allavegana, vildi bara láta vita af mér. Skrifa meira fljótlega.

Ps. takið eftir "kvótinu", hvergi á þetta meira við en akkúrat hérna í 'The OC'. Sorglegt en satt.

miðvikudagur, maí 04, 2005

Snáken bitte!


Þessir eru búnir að vera dáldið duglegir að sýna sig hérna, á gangstéttunum, í blómabeðunum, í grasinu... út um allt! Ég er því hætt að ganga um með höfuðið í skýjunum og horfi alltaf niður fyrir mig, tek beygjur framhjá runnum og held mig í góðri fjarlægð frá öllum snákasvæðum. Þetta er enginn sérstaklega hættulegur snákur, kallaður "gopher" en getur bitið ef maður stígur ofan á hann! Posted by Hello

Photos // Myndir

Fleiri myndir komnar frá páskaferðinni og afmælinu mínu. Vegna anna hef ég ekki komist í að skrifa flókna og fyndna texta við allt, en þið verðið bara að þola það!

þriðjudagur, maí 03, 2005

Innflutningur glæpona til Íslands

Hey, er ekki heill hellingur af Íslendingum á norðurlöndunum sem eru bæði lúserar, aumingjar og jafnvel dæmdir glæpamenn og -konur? Eigum við að stofna stuðningshóp og reyna að fá þá alla heim???!! :D JAHÁ! Það hljómar æðislega vel! Hópurinn skal heita "Glæpina heim" eða eitthvað álíka gáfumannlegt... sem er alveg í stíl við hópinn....!!! ARGH! Hvað er að?! Erum við öll svo mikið að drepast úr minnimáttarkennd að við verðum að fara út í einhver svona fíflalæti?

mánudagur, maí 02, 2005

SURPRISE!!!

Jahá, ég fékk aldeilis óvænta afmælisgjöf! Reyndar margar... ;) Yndislegi maðurinn minn og bróðir hans höfðu hamast við að plotta að hafa óvænt afmælispartý fyrir mig á ströndinni, grill og alles! Þeir buðu fullt af fólki og allir komu með góða skapið :) Þetta var sko aldeilis óvænt og alveg svakalega gaman! Þannig að nú er ég 29 ára, sólbrennd, sæl og með fleiri broshrukkur en í fyrradag :)

Þetta var svo mikið surprise... og það virtust allir vita af þessu nema ég! Mamma, allir vinir mínir hér og meira að segja Fröken Ragnheiður í Japan!!! :D Hún sendi mér pakka og bréf, þessi elska! TAKK RAGGA MÍN!! Knúsíknúsíknús! Planið var s.s. að Abdul og ég ætluðum að fara út að borða, bara við tvö að rómó-ast og svo labba á ströndinni með Bear. En svo hringdi Suliman og þeir ræddu einhver heil ósköp saman og Abdul sagði að Suli vildi endilega hitta okkur fyrr um daginn og óska mér til hamingju, í einhverri ísbúð í suðurhluta Laguna Beach. Lítil ísbúð á ströndinni, rosa góður ís, blablabla... og ég bara kokgleypti þetta allt saman! Svo vorum við að keyra til að leita að ísbúðinni og fórum inn á bílastæði við ströndina. Þar sá ég útundan mér íslenska fánan blakta við grill, og einhver maður stóð og var að grilla. Það fyrsta sem mér datt í hug var: "Ó, en skemmtileg tilviljun! Íslendingafélagið er að hittast hér á fyrsta maí í staðinn fyrir San Diego!"En svo fór ég nú að greina hana Nicky vinkonu, og bara humm... hvað er hún að gera þarna... og svo BÚMM! Fattaði ég! Íííík! Hrikalega gaman!

Það voru einhverjar myndir teknar og ég mun skella þeim á netið, ásamt fleiri myndum úr ferðinni okkar um páskana sem ég er ekki enn búin að henda á netið!

Takk fyrir frábæran dag og takk fyrir allar gjafirnar!! Það kom mér sko aldeilis á óvart að fullorðnir fái enn svona fínar gjafir! :D

Abdul, thank you for a wonderful day... It was the most amazing surprise!!! I love you.